Útivera er mikilvægur þáttur í starfi leikskólans og hefur uppeldislegt gildi. Daglega fara börnin út að leika eða í gönguferðir. Úti gefst færi á grófhreyfingu sem ekki er hægt að stunda inni. Hljóðvist er önnur úti og rými barnanna meira; þau geta hlaupið, hjólað, haft hátt og farið í felur.

En stundum þurfa börn að fá að vera inni. Þessi megin viðmið gilda hjá okkur um inniveru barna: Hafi barn verið heima vegna veikinda er hægt að biðja um inniveru einn dag eftir veikindin. Telji foreldrar þörf á að börnin séu lítið úti notum við reglu um að börn fari síðust út og komi fyrst inn.

Geti barn ekki sótt leikskóla vegna veikinda í fjórar vikur samfellt eða lengur geta foreldrar sótt um allt að 50% afslátt af leikskólagjöldum. Afsláttur er veittur fyrir þann tíma þegar veikindi vara gegn framvísun læknisvottorðs sem staðfestir að barnið hafi ekki getað sótt leikskóla.

Sækja verður um afsláttinn innan þriggja mánaða frá því að veikindum lýkur. Foreldrar bera ábyrgð á því að upplýsa skóla- og frístundasvið um að barnið hafi hafið leikskóladvöl að nýju. Skóla- og frístundasvið áskilur sér rétt til þess að innheimta leikskólagjöld afturvirkt komi í ljós að ekki hafi verið greitt fullt gjald eftir að barn hóf leikskólagöngu að nýju.


© 2016 - 2020 Karellen