Leikskólinn Sunnufold var stofnaður árið 2011, þann 9. október. Hann er fimm deilda og starfræktur í tveimur starfsstöðvum í Foldahverfi í Grafarvogi. Við skólann starfa að meðaltali 30 starfsmenn með 100 börnum. Starfsstöðvarnar bera nafn af götunni sem þær standa við og eru: Frosti við Frostafold 33 og Logi við Logafold 18. Í Grafarvogi er ekki langt að sækja í náttúruna sem býður upp á fjölbreytt fuglalíf, rannsóknarferðir í fjöruna og skemmtilegar ferðir í skóginn.

Leiðarljós Sunnufoldar

Starfsfólkið er okkar mikilvægasta afl. Með þekkingu sinni, vinnu og viðhorfum skapar það grundvöll fyrir leikskólastarf þar sem foreldrar eru virkjaðir til samstarfs með þátttöku og velferð barnanna að leiðarljósi

Sunnufold er leikskóli þar sem starfið er barnmiðað og góð samskipti skapa vettvang fyrir vináttu og vöxt. Við þjónum fólki af fagmennsku, temjum okkur víðsýni og leitum nýrra leiða þegar þarf. Starfsfólk Sunnufoldar sækir sér faglega þekkingu og úrræði bæði sín á milli og með því að sækja faglega kennslu út fyrir skólann. Við leggjum áherslu á að starfsfólk skoði eigin starfsaðferðir og meti starfið með samstarfsfólki, börnum og foreldrum þar sem velferð barna er í forgrunni og til að skapa samfellu milli heimilis og leikskóla. Með áherslum og sýn allra þátttakanda myndast skólabragur sem er viðurkennandi fyrir alla aðila og eykur öryggi og vellíðan barnanna.


© 2016 - 2020 Karellen